Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Eins og talað frá mínu hjarta.

Langaði til að setja hér inn færslu sem hún Jóhanna, bloggvinkona min setti inn. Það sem hún segir þarna er algjörlega frá mínu hjarta. Þess vegna fékk ég leyfi til að birta hana óbreytta.

Njótið vel.

 

Sjálfsmynd þjóðar... frelsi, jafnrétti og náungakærleikur á að vera okkar stolt

Ég horfði með öðru auganu á þátt á RUV þar sem dönsk kona fylgdi okkur í ferðalag um Katar. Þar var rætt við arabísk ungmenni. Þau voru bæði frekar frjálslynd.

Það sem vakti athygli mína var það sem ungi maðurinn sagði; hann sagði að mikið af unga fólkinu væri í sjálfsmyndarkreppu vegna uppruna síns; þau skömmuðust sín fyrir að vera Arabar. Það er auðvitað sorglegt.

Undanfarið hef ég heyrt fólk tala um, svona frekar í gamni en alvöru, að það skammist sín fyrir að vera Íslendingar, og væri eflaust hálfhrætt við að viðurkenna þjóðerni sitt væri það statt t.d. í Bretlandi eða Danmörku.

Rasismi er meðal annars fólginn í því að líta stærra á sig en aðra vegna kynþáttar eða trúar. Kynþáttahyggja er íslenska orðið. Við vitum öll að við gætum setið í herbergi með góðu fólki af öllum stærðum og gerðum, kyni, kynþætti, kynhneigð og það gætu allir verið góðar manneskjur.

Þegar ég skrifaði um Moskur nýlega, snérust áhyggjur mínar í þá áttina að múslimar teldu lög sín og trú æðri lögum sem gilda á Íslandi. Ég hafði líka áhyggjur af því ójafnvægi sem virðist ríkja milli kynja hjá þeim sem eru róttækir í trú sinni á Íslam. Misréttið má ekki flytja með inn í landið.  

Við höfum nú þegar trúfélög sem leggja blessun sína á misrétti kynjanna. Kaþólska kirkjan leyfir konur ekki í embætti presta og margir minni bókstafstrúarsöfnuðir hengja sig enn á það að maðurinn sé höfuð konunnar, "as if he was god!"

Ég er á móti þeirri hyggju að telja sig æðri náunga sínum, vegna m.a. kynþáttar, kyns, kynferðis o.s.frv.

Í framhaldi af þessu vil ég hvetja okkur öll til að standa stolt. Stolt fyrir það að þrauka þessar stóru öldur sem á okkur skella. Stolt fyrir að standa með náunga okkar og vera heil.

Verum stolt, kurteis og föllum ekki í sömu gryfju og þeir sem úthrópa Íslendinga, reka þá út úr töskubúðum í Köben eða  gæludýrabúðum í Glasgow. Förum ekki niður á þann "level." Það hafa örugglega verið margir kaupmenn í bæði Köben og Glasgow sem hafa verið prúðir og borið virðingu fyrir sínum viðskiptavinum.

Nú höfum við aðeins fengið að kenna á eigin meðali .. þ.e.a.s. varðandi framkomu við útlendinga. Kona frá Litháen skrifaði í blöðin í morgun og sagðist ekki fá leigt. Hún lendir í því að "borga" fyrir samlanda sína sem hafa verið hér í glæpagengi eða einhverju álíka.

Það myndi samt enginn úthýsa mér ef ég sækti um sama húsnæði, vegna framkomu Benna Ólsara eða annarra íslenskra handrukkara. Samt er ég alveg þrælíslensk (eins og þeir).

Látum ekki vaða yfir okkur,  en vöðum heldur ekki yfir aðra saklausa borgara. Stöndum vörð um það frelsi sem á Íslandi ríkir, málfrelsi, trúfrelsi og jafnrétti.

Því getum við verið stolt af og það styrkir sjálfsmynd okkar sem þjóðar.



Allir að skrá sig!!!

Endilega drífa sig. Við hjónin skráðum okkur áðan. Rétt á meðan við vorum að fara yfir listann skráðu sig um 1000 manns.

Frábært framtak

Áfram jákvæðni


mbl.is Íslensk mótmæli á netinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverju á maður að trúa?

Eru ekki fleiri en ég í vandræðum með það?  Nú koma niðurstöður úr skýrslu sem blaðamennirnir sjálfir hafa gefið út og þar erum við í fyrsta sæti. Þá kemur fram fjöldinn allur af sjálfskipuðum sérfræðingur og heldur fram því gagnstæða. Hverju eigum við hin svo að trúa?
mbl.is Fjölmiðlafrelsi mest á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur þetta verið? Erum við virkilega ekki komin lengra?

Ég sá það nú síðast á sunnudaginn á göngu minni um Skólavörðustíginn að a.m.k. tvær verslanir skrifuðu á ensku og settu á hurðina hjá sér að peningar Gordons Brown væru ekki gjaldgengir þar/velkomnir ....

Þessa athugasemd sá ég inn á síðunni hjá Baldri.

Á ég að trúa því að það séu einhverjir verslunareigendur á Íslandi í dag sem setja upp svona tilkynningu?

Mig langar svo til að einhver segi mér að þetta sé ekki satt.

En ef þetta er tilfellið, þá væri ég til í að vita hvaða verslanir þetta eru. Því á meðan þessir miðar eru í glugganum hef ég ekki heldur áhuga á að versla hjá þeim.

Nú er gott að hlusta á Guðjón Bergmann

Góða nótt og eigiði ljúfa drauma


Ég hef komið þangað.

Ekki keypti ég þó stera. En fann annað. Haldiði að ég hafi ekki fundið Freyju Hraun í einni sjoppunni þar. Þetta var víst 1993. Pakkinn útrunninn í dag ef hann hefur ekki klárast.

En gott mál að þeir náðust.


mbl.is Fjörutíu Svíar handteknir fyrir lyfjasölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykjavíkur meinið þið.

Ég hef ekki orðið vör við neina flugvélafarma af skandinövum í verslunarhugleiðingum. Hef heldur ekkert heyrt af þeim á Egilsstöðum. Viðurkenni þó að ég er nett abbó. Væri alveg til í að fá svo sem eins og einn farm í búðirnar hérna og alveg til í að senda einn farm austur líka. En við þurfum víst að bíða eitthvað eftir þeim.
mbl.is SAS var óvart með útsölu á flugmiðum til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Do you speak english?

Er kannski ekki sammála öllu sem Brynhildur segir þarna en það er alveg öruggt mál að eitthvað þarf að gera í þessu. Ég hef sjálf verið stödd erlendis og séð ráðherra halda ræðu og úff. Það er algjör óþarfi að vera að blanda stjórnmálaflokkum inn í þetta. Það vill bara til að nú eru það sjálfstæðismenn sem eru að mestu í brúnni og í þessum erlendu samskiptum. Þetta á auðvitað að gilda um alla ráðherra hverju sinni. Og einnig þá þingmenn sem fara erlendis á ráðstefnur og annað. Setja þá í stöðupróf í ensku og ef á þarf að halda senda túlk með. Við eigum örugglega fullt af frambærilegum túlkum sem gætu tekið þetta starf að sér. Við þurfum að standa upprétt í þessu sem öðru. Það er alls ekki smánarlegt að skilja ekki allar mögulegar mállýskur í ja nánastöllum heiminum. Ég hef stundum séð viðtal í fréttum á ensku við einhverja sem tala ensku sem þriðja mál jafnvel og ég horfi bara og horfi og skil ekki eitt einasta orð.

Nú tala ég mjög góða daglega ensku, meira að segja það góða að þjóðverjinn og fleiri halda að ég sé Ameríkani. Ameríkaninn í Georgíu heldur að ég sé frá einhverju öðru fylki sem ég man ekki hvað er í augnablikinu. En þegar kemur að faglegri ensku er ég bara ekki góð lengur og viðurkenni það alveg. En af því að fólk heyri mig tala daglega málið svo auðveldlega, þá býst það við að ég sé "alveg" góð í málinu.

Ég get líka labbað inn á kaffihús í París, heilsað og pantað kaffi á svo góðri frönsku að frakkarnir halda að ég sé local. En svo kann ég ekki meira.Hef prófað þetta oftar en einu sinni.

Nú tala ráðherrarnir okkar mismunandi málýskur. T.d. Árni sem lærir í Skotlandi. Það er ekkert óeðlilegt að einhverjir eigi erfitt með að skilja hann eða þá hann að skilja þá sem hafa lært annarstaðar.

 

Það er allt í góðu að bera virðingu fyrir enskri tungu en algjör óþarfi að fara á  bömmer þó maður sé ekki með fullkominn framburð. Og hver er svo hinn fullkomni framburður? Sem betur fer er það löngu sannað að tal hefur ekkert að gera með vit.

Þetta með mannasiðina. Stundum finnst mér eins og það megi senda hálfa þjóðina á mannasiðanámskeið. Ég þyrfti trúlega stundum líka. En það eru mismunandi kröfur gerðar til okkar og við gerum auðvitað meiri kröfur til þeirra sem eru í eldlínunni hverju sinni. Man ekki betur en að Framsóknarmenn hafi boðið upp á framkomunámskeið hér um árið. Margir hneyksluðust þá en hver veit nema þetta sé málið. Tel fullvíst að þeim sem hafa alist upp í Sjálfstæðisflokknum standi til boða svoleiðis námskeið. Og er það hið besta mál. Svo er stóra spurningin þetta hvort hægt sé að kenna gömlum hundi að sitja. Því reyni ég ekki einu sinni að svara.

Ég lendi margoft í því hér á blogginu að sjá einhverja spennandi athugasemd við frétt og svo fer ég inn á síðuna hjá manneskjunni og þar er þvílíkt orðbragð að ég fer strax út aftur. Þannig að dónaskapurinn er út um allt ef þú leitar.

Ætli þetta sé nú bara ekki orðið gott í bili.

Enda með því að mæla með því að hæstráðendur þjóðarinnar fari nú að brjóta odd af oflæti sínu og viðukenni bara ef þeir eru ekki öruggir í enskunni og fái túlk með sér.

Hafið það gott í dag


mbl.is Vill senda ráðamenn á tungumálanámskeið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í vikulok

Þessi helgi flaug áfram eins og flestar helgar gera. Ég var að vinna við áhugamálið bæði á föstudagskvöld og laugardag. Hitti þar fullt af fólki. Takk fyrir helgina öll sem lesið þetta. Ég hlakka til þegar við endurtökum þetta. Eiginmaðurinn átti á koma í dag af sjónum en þeir flýttu för sinni og hann mætti í gær. Það var til þess að við ákváðum að skella okkur á dansiball í gærkveldi. Fyrir valinu var Geirmundur á Vélsmiðjunni. Af hverju? Jú, mestar líkur á að við hittum þar einhverja sem við þekktum en hefðum ekki séð í langann tíma. Þetta var sú ódýrasta ballferð sem ég hef farið. Hún kostaði heilar 500 krónur. Þar sem við drekkum ekki áfengi þá höfum við yfirleitt fengið okkur kaffi á svona samkundum. Ákváðum þó í þetta skiptið af fá okkur gos svo við værum ekki eins hallærislegBlush á að líta.  Svo þegar Unnur komst að því að við drykkum bara gos bauð hún okkur í glas. Takk fyrir það Unnur mín. Ég var að reyna að rifja upp hvað það væri langt síðan við hefðum farið á ball og það er nú ansi langt síðan. Við vorum á Tenerife á sjómannadaginn sl. þannig að ekki var farið þá. Sem þýðir að það var einhverntímann í fyrravetur, man bara ekki hvenær. Rosalega finn ég mikinn mun eftir að reykingar vorum bannaðar. Ég kom heim þegjandi hás í þessi fáu skipti sem ég fór áður.  Þvílíkur munur núna, hægt að anda eðlilega og enginn að blása framan í mann.

Það var mjög fróðlegt að horfa á fólkið þarna. Fullt af eyrarpúkum. Við vorum meirihlutinn þarna til að byrja með. Allir að spara. Frítt allavega fram að miðnætti. Oftast held ég selt inn eftir það. Sá svo einn mann þarna sem ég man eftir úr Sjallanum. Þar var hann alltaf mættur fyrstur á gólfið með sinn danspartner. Mjög góður dansari og snéri dömunni fram og aftur. Þangað til of margir voru komnir á gólfið. Þá fóru þau. Og mér sýndist það sama vera upp á teningnum í gærkveldi. Þau voru held ég farið á undan okkur og þá er mikið sagt. Við vorum nefninlega komin heim um tvöleytið.

Hulda mín, ég ætla rétt að vona að þessi dagur hafi verið þokkalegur hjá þér í dag. Var hugsað til þín um miðjan dag. Svo hittum við ein hjón sem höfðu verið með okkur á Tenerife í vor. Þeir sem þekkja manninn minn vita að hann er ekki mikið fyrir að skakklappast á gólfinu en ég skellti mér aðeins út á gólfið með Unni. Annars var mikið að gera hjá þeim konum sem voru einar þarna. Kallarnir voru virkilega duglegir að bjóða þeim upp.

Við tókum svo einn rúnt í bæinn eftir ball. Mikið var eitthvað kuldalegt. Og krakkarnir alltof illa klædd.

Rétt eftir að við komum heim hringdi unglingurinn og var þá búin að passa. Ég náði í hana og renndi heim Leó, sem við höfðum fengið til að vera hér hjá okkar börnum á meðan. Hafði skipt blússunni yfir í peysu og það var allt annað að koma út. En mikið leið mér vel þegar ég lagði höfuðið á koddann. Snögg að sofna.

Ætlaði svo að vera virkilega löt í dag og dorma fram að hádegi. En síminn byrjaði að hringja um tíuleytið og hringdi svo nógu oft til að ég rétt næði að gleyma mér og hrökk svo upp aftur. 

Eftir hádegið bakaði ég svo súkkulaðibitakökur. Það var unun að horfa á gaurinn með mjólkurglasið, dýfandi kökunni í. Mér finnst svo kökur alveg geðveikt góðar heitar með ískaldri undanrennu. En missi svo alveg áhugann á þeim þegar þær eru orðnar kaldar.  

Eiginmaðurinn eldaði svo þessa líka fínu purusteik í kvöldmatinn. Ég hef aldrei verið mikið fyrir ferskt svínakjöt. Finnst það mjög fínt reykt og nýtt fínt líka í allskonar pottrétti og svoleiðis en ekki hreint. En þessi steik var sú besta sem ég hef smakkað. En hvað við erum heppin að hafa svona góðan kokk hérna á heimilinu. Birna, vinkona gaursins var í heimsókn hérna og var boðið í mat. Valkirjan var í allan dag í heimsókn hjá Berglindi vinkonu sinni, fór með þeim í bíltúr og fleira skemmtilegt. Hún vildi svo fá að bjóða henni í mat og var það ekkert mál. Nóg af mat og allir saddir.

Þeir Akureyringar sem hafa kíkt út um gluggann í dag hafa séð að það er smá snjóföl. Þau yngri settu upp húfu og vettlinga eftir matinn, fylgdu Berglindi heim og kíktu svo aðeins út á lóð. Rétt svona að athuga hvort hann væri eins og í fyrra.

Var að fatta að ég hef ekkert farið út í dag. Kannski sniðugt að bjóða eiginmanninum út á göngu, kíkja í kaffi til Leifs bróður sem er nýfluttur í næstu götu hérna. Hann hefur alveg örugglega ekki verið með steik í matinn. Býr einn. Tek með mér smá á disk.

Annars bara eigiði góða vinnuviku

Over and out.


Ég vil, ég vil.

Þetta er eitt af því sem við þurfum að slappa aðeins af með. Það þýðir ekkert fyrir okkur að heimta bara og heimta að flugfélögið fljúgi með okkur þangað sem við viljum, þegar við viljum og finnast sjálfsagt að þeir fljúgi með hálftómar vélar. Flugfélögin eiga að spara, eins og aðrir og þá verðum við að taka tillit til þess.

Hafið það gott í dag.


mbl.is Fækka ferðum til þriggja áfangastaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugmynd

Nú er um að gera að sameinast öll. Allir íslendingar sem ferðast til Kaupmannahafnar fara inn í þessa búð, skoða töskur eða hvað það nú er. Tala bara íslensku, hann kann að segja bless, hann hlýtur að kunna meira, eyða löngum tíma þar en tvennt verður að vera á hreinu, þú mátt ekki kaupa neitt og þú verður að vera fullkomnlega kurteis og sýna algjörlega þá bestu mannasiði sem mamma þín kenndi þér, nú eða pabbi, eftir því hvort þeirra var kurteisara. 

Nú eða hunsa búðina.

Það væri bara ekki eins gaman.

En hvað segiði um þetta?


mbl.is Rekin úr búð í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Anna Guðný
Anna Guðný

Langar að æfa mig í að setja saman texta. Sé til hvað ég gef mér mikinn tíma í það.

Sjálfstæður Herbalife dreifingaraðili. www.heilsufrettir.is/anna

Þeir sem vilja hafa samband má benda á netfang sem er: ollana@simnet.is

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 26
  • Frá upphafi: 201305

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Um bloggið

ollana

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband